fbpx

Aðalfundur ferðaklasans 2023

Aðalfundur Íslenska ferðaklasans fór fram í Fenjamýri, Grósku, þann 13.júní síðastliðinn.

Að því tilefni gáfum við út árskýrsluna okkar þar sem stiklað er á stóru úr starfi ársins. Hér má nálgast Ársskýrsluna í heild sinni.

Í skýrslu stjórnar segir m.a:
Vettvangur Íslenska ferðaklasans hélt áfram að standa vörð um kjarnaverkefnin sem snúa að sjálfbærni og nærandi ferðaþjónustu, nýsköpun og aukinni hæfni stjórnenda í stafrænni þróun.


Alls stóð Íslenski ferðaklasinn fyrir tæplega 40 viðburðum sem má ætla að hafi náð til yfir 3500 manns. Viðburðirnir voru misjafnir af stærð og umfangi en Ferðaklasinn hefur lagt mikið uppúr góðu samstarfi við aðila í stuðningsumhverfi ferðaþjónustunnar og ber framkvæmd viðburða á starfsárinu þess merki. Þá stóð Ferðaklasinn fyrir alþjóðlegri klasaráðstefnu sem haldin var í Reykjavík í nóvember 2023 með þátttöku yfir 200 gesta frá öllum heiminum.


Ferðaklasinn hefur á starfsárinu verið þátttakandi í tveimur stórum evrópuverkefnum þar sem verkefnafé er um sjö hundruð milljónir í heildina. Hlutur Íslands er um 70 milljónir auk þess sem klasinn stýrir norrænu verkefni sem fjármagnað er af norrænu ráðherranefndinni að upphæð tæpar 40 milljónir króna. Í þeim evrópuverkefnum sem klasinn hefur valið að vinna í gefst fyrirtækjum í ferðaþjónustu kostur á að sækja um verkefna fé annars vegar til að innleiða nýja tækni og hinsvegar sjálfbærni og nærandi ferðaþjónustu. Alls eru það 25 fyrirtæki sem taka þátt í þessum verkefnum og hljóta þau alls 30 milljónir í verkefnastyrki.


Það er álit stjórnar að ársreikningur félagsins fyrir árið 2023 gefi rétta mynd af starfi klasans og áherslum sem lagðar hafa verið. Tekjur Íslenska ferðaklasans árið 2023 eru 81,7 millj. kr. og hækka um 22,8 millj. kr. milli ára. Gjöld eru 71 millj. kr. og hækka um tæpar 11 millj. kr. milli ára. Hagnaður á rekstri ársins samkvæmt ársreikningi eru því 11 millj. kr. samanborið við 1,2 millj. kr. tap árið áður. Hluti skýringa á jákvæðri niðurstöðu í ársreiknini þessum felast í því að greiðslur fyrir þátttöku í erlendum verkefnum erum að koma inn á árinu 2023 og eru svo til greiðslu á árinu 2024. Eins féll til kostnaður á árinu 2022 þar sem greiðslur komu á móti á árinu 2023.

Það er okkur sem störfum á vettvangi Íslenska ferðaklasans efst í huga mikið þakklæti til okkar helstu samstarfsaðila og þátttakenda í verkefnunum okkar, án ykkar væri starf okkar ekki til.

Nýkjörin stjórn Íslenska ferðaklasans næsta starfsárið skipa:

Andrés Jónsson, til vara Jakobína Guðmundsdóttir, Icelandair

Sölvi Sturluson, til vara Hjörtur Þór Steindórsson, Íslandsbanka

Hrönn Ingólfsdóttir, til vara Grétar Már Garðarsson, Isavia

Kristján Guðbjartsson, til vara Þorsteinn Hjaltason, Landsbankinn

Helga Árnadóttir, til vara Bryndís Björnsdóttir, Bláa Lónið

Rannveig Grétarsdóttir, Elding

Elín Sigurveig Sigurðardóttir, Icelandia

Jón Gestur Ólafsson, Bílaleiga Akureyrar